Tæknidagur fjölskyldunnar 2025
Í byrjun apríl tók Náttúrustofa Austurlands að vanda þátt í tæknidegi fjölskyldunnar sem Verkmenntaskóli Austurlands stendur fyrir árlega. Dagurinn er hinn skemmtilegast þar sem fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök kynna tækni, vísindi og verkmenntun. Dagskráin var lífleg og fjölbreytt þar sem m.a. Sprengju-Kata frá Háskóla Íslands sýndi listir sínar, nemendur úr 10. bekk Nesskóla sýndu afrakstur nýsköpunarkeppni sem þau tóku þátt í, Skriðuklaustur bauð í sýndarveruleika og stjarnan hann Doddi líffræðikennari krufið mink og ref með tilþrifum og komust færri að en vildu til að sjá.
Náttúrustofan kynnti rannsóknir á gæsum og hreindýrum með GPS tæki og landupplýsingar og þá var gestum leyft að spreyta sig á að greina hreindýr til kyns og aldurs af ljósmyndum. Nokkrir ungir þátttakendur sýndu þar snilldartakta og aldrei að vita nema þar séu komnir framtíðarstarfsmenn. Við þökkum Verkmenntaskólanum fyrir framtakið og gestum fyrir innlitið.