Fugladagurinn 2025

Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags Fjarðamanna var haldinn laugardaginn 3.maí 2025. Eins og vanalega var boðið upp á fuglaskoðun á tveimur stöðum, annars vegar við ós Norðfjarðarár kl 11:30 og við Andapollinn á Reyðarfirði kl 12:30.

Gott veður var á Norðfirði, sól og rúmlega 3°C en heldur mikil og köld hafgola. Á Reyðarfirði var blíðskapar veður, heiðskýrt og hiti um 6°C. Það var því svolítið svalt þó það væri bjartur og fallegur dagur á báðum stöðum.

Fjórir mættu við Andapollinn á Reyðarfirði en tólf á Norðfirði auk starfsfólks Náttúrustofunnar. Fjöldi tegunda sem sást að þessu sinni voru alls 26 á Reyðarfirði en 21 á Norðfirði. Eru það aðeins færri tegundir en oft áður á báðum stöðum.

Á Reyðarfirði sáust:bjargdúfa, skúfönd, grágæs, skógarþröstur, hettumáfur, hrossagaukur, heiðlóa, auðnutittlingur, maríuerla, stelkur, tjaldur, sandlóa, kría, sendlingur, hrafn, lóuþræll, tildra, hávella, æður, teista, stokkönd, fýll, heiðagæs, þúfutittlingur, silfurmáfur og rita
Á Norðfirði sáust: Álft, grágæs, rauðhöfði, æður, hávella, straumönd, toppönd, tjaldur, sandlóa, sendlingur, lóuþræll, tildra, stelkur, jaðrakan,hettumáfur, silfurmáfur, kría, þúfutittlingur, fýll, dúfa og stokkendur.

20250503 113817

20250503 131642

Sjórekin súla úr Skrúði

2024 daud sula

Sl. sumar tilkynnti Börkur Marinósson um merkta súlu sem fannst sjórekin í Hellisfirði. Við eftirgrennslan hjá fuglamerkingum Náttúrufræðistofnunar Íslands kom í ljós að súlan var ættuð frá Skrúði og var amk 24 ára þegar hún drapst. Hún var merkt sem fullorðinn fugl á hreiðri í Skrúði þann 7. júlí 2000, nokkrum árum áður en finnandinn fæddist.

Lúsugur refur úr Skagafirði

Í lok mars bárust Náttúrustofu Austurlands sýni úr ref sem skotinn var í Skagafirði í febrúar 2025. Tilkynnandi var Reimar Ásgeirsson uppstoppari á Egilsstöðum, en hann hafði veitt því athygli að feldur dýrsins virtist nokkuð appelsínugulur á kviði. Við nánari skoðun kom í ljós að feldurinn var alsettur smávöxnum skordýrum, bæði fullorðnum og ungviði sem virtust loða við hár dýrsins.

Starfsmaður Náttúrustofunnar myndaði dýrin undir smásjá og eftir samtal við Karl Skírnisson dýrafræðing á Keldum var talið líklegast að um væri að ræða hundasoglús (Linognathus setosus) sem er mjög sjaldgæf hérlendis og hefur ekki áður fundist á refum á Íslandi svo vitað sé.

Sýni hafa verið send á Keldur til frekari rannsókna en í samtali við Guðnýju Rut Pálsdóttur, sníkjudýrasérfræðing á Keldum sagði hún frá nýlegri grein þar sem m.a. er lýst aukinni tíðni soglúsamita eftir 2019 bæði í refum í Kanada og á Svalbarða. Einnig eru þar leiddar að því líkur að þær soglýs sem fundust á refum séu það frábrugðnar hundasoglús, bæði erfðafræðilega og útlitslega að þær geti tilheyrt annarri tegund. Það verður spennandi að heyra meira.

20250327 102352

refalusCrop